Gleðilegt nýtt ár og tómt batterí

Nágranni minn í Skorradal hafði nýlega samband við mig og benti mér á að ekki bárust lengur neinar upplýsingar um vind frá veðurstöðinni í Hvammi.
Þegar betur var að gáð reyndist það vera rétt og kom í ljós að upplýsingar um vind hættu að berast rétt fyrir jólin, þó einhverjar slitróttar sendingar hafi borist þar á eftir. Það er ósköp einföld skýring á þessu. Vindmælirinn er sjálfstæður og óháður öðrum hlutum veðurstöðvarinnar.
vindmaelir

Mælirinn sendir gögn sín þráðlaust til móttökustöðvar. Sendibúnaðurinn notar að mestu leiti orku sem framleidd er með sólarorku og dugir þar vel litla sólarrafhlaðan sem sést á myndinni sem tekin var á gamlaársdag. Á þessum tíma árs er litla sól að hafa og er þá treyst á varabatterí. Slíkt batterí duga í 2-3 mánuði við stöðuga notkun, en með sólarrafhlöðunni í 2-3 ár. Það reyndust einmitt vera rúm 2 ár síðan síðast var skipt um batterí. Vefstjóri ákvað því að skreppa í smá ferðalag í Skorradal á gamlaársdag og skipta um batterí.
vatn_frosid1
Það virtist vera mannlaust á Hvammssvæðinu. Enginn snjór reyndist vera á láglendi, en vatnið reyndist fullkomlega lagt af þykkum ís. Gekk ég ásamt félag mínum út á vatnið og virtist ísinn jafn og þykkur þrátt fyrir nýleg hlýindi.

Vindimælirinn hrökk strax í gang þegar hann fékk nóg af góðu rafmagni. Ég notaði einnig tækifærið til að endurræsa myndavélina sem birtir myndir af Hvammshlíðinni, en hún hefur verið frekar treg að senda frá sér myndir. Eftir þetta virtist allt vera í góðu lagi og kominn tíma til að halda heim á leið og sjóða hamborgarahrygginn.
vatn_frosid2

Gleðilegt nýtt ár að takk fyrir samskiptin á árinu sem er að líða


© 2009-2015 Félag sumarhúsaeigenda í Hvammi Hafðu samband