Mýið bítur

Margir sumarhúsaeigendur hafa haft á orði að mun meira sé af mýi en undanfarin ár. Einnig virðist hafa borið meira á bitum, en áður, en sennilega er það eingöngu vegna þess að meira er af mýinu. Vefstjórinn starfar við húðlækningar í frístundum og hefur hann séð þó nokkur slæm tilvik, bæði úr Skorradalnum og víðar.

Mýflugurnar


En hvað vitum við um mýflugurnar sem eiga það til að bita okkur ? Eftirfarandi upplýsingar eru fengnar af Vísindavefnum (http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=365)
Hérlendis eru án efa tvær ættir mýflugna þekktastar, rykmý og bitmý. Bitmý gengur reyndar undir nokkrum nöfnum, til dæmis bitmý, bitvargur og vargur. Til eru fjórar tegundir á Íslandi af bitmýi, en aðeins ein þeirra sýgur blóð úr spendýrum, að meðtöldum mönnum. Mestan hluta lífsferilsins eyðir bitmýið sem lirfa á botni straumvatna. Þar festa lirfurnar sig við undirlagið og fanga og éta það sem rekur ofar úr vatnakerfinu. Því er mergð bitmýs jafnan mest þar sem mest magn lífrænna agna flýtur um, eins og við útfall frjósamra stöðuvatna, til dæmis efst í Elliðaánum eða í Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu. Lífsferill bitmýsins getur tekið allt frá nokkrum vikum upp í eitt ár. Fljótlega eftir mökun verpa flugurnar og eru eggin fullþroskuð þegar kvenflugan skríður úr púpunni.

Af hverju bítur mýbitið?
Það eru einungis kvenflugurnar sem bíta og þær gera það eftir að þær hafa verpt í fyrsta skipti. Þá þurfa þær orku til að mynda fleiri egg. Eftir fyrsta varp eru þær um það bil helmingur til 2/3 af upprunalegri þyngd, með grannan búk og geta flogið langar leiðir, oft 10 til 20 km í leit að spendýri til að sjúga blóð. Orku til flugsins fá þær úr blómasykri, en fullorðin karldýr fá alla sína orku úr blómasykri. Til að leita uppi spendýrið laðast þær að koltvísýringi, sem skýrir hví þær sækja til að mynda í andlit manna.

Er einhver viss árstími sem flugan bítur frekar?
Á Íslandi flýgur bitvargurinn á vorin, á Suðurlandi í maí og á Norðurlandi í júníbyrjun. Ef mikið er af lífrænu reki sem lirfurnar geta nýtt sér flýgur önnur kynslóð í júlí til september og hugsanlega eru þrjár kynslóðir í sumum ám á Suðvesturlandi. Bestu skilyrði til þess að bitmýið fljúgi eru hægviðri, hlýindi og mikill raki, til dæmis eftir skúr.

Þegar mikill vindur er eða mjög kallt geta mýflugurnar ekki flogið og halda sig undir gróðri.

Af hverju sleppa sumir algjörlega við bit á meðan aðrir eru illa bitnir?


Flest bendir til þess að ekki sé neinn munur á því hve oft fólk er bitið, heldur hvernig þeir sem bitnir eru svara bitinu. Þeir sem svara bitum heiftarlega hafa myndað eins konar ofnæmi gegn eggjahvítuefnum sem mýið skilur eftir i húðinni. Algengustu einkennin eru rauðar bólur eða hnútar sem eru mjög klæjandi.

Í flestum tilvikum ganga einkenni yfir á 7-10 dögum án meðferðar, en á þeim tíma getur sjúklingnum liðið frekar illa vegna kláða, sérstaklega fyrstu dagana.
Ef viðkomandi einstaklingur er með mjög slæmt ofnæmi geta myndast blöðrur í húðinni, eins og sjá má hér að neðan.

Ef bitin eru mjög mörg og/eða svörunin kröftug geta fylgt almenn einkenni, s.s. slappleiki eða jafnvel hiti. Ofnæmislosti hefur verið lýst, en er mjög sjaldgæft.

Eru einhverjir þætti sem auka líkurnar á biti?


Mýið dregst að mannskepnunni vegna líkamshita, koltvísýrings í útöndunarlofti og svita. Þannig hafa mýflugur minni áhuga á þeim sem svitna ekki, eða svitna lítið. Margir kannast við að mýið dregst að þeim þegar þeir eru á fullu úti í lóð og svitinn bogar af þeim. Einnig er líklegt að bakteríur sem búa á húð okkar geti dregið að sér mýflugur. Áfengisneysla dregur einnig að sér mýflugur og eykur því líkur biti. Það því sennilega ekki góð hugmynd að fá sér einn kaldann og halda síðan niður að vatni á lygnum degi.

Er hægt að koma í veg fyrir mýbit?


Klæðnaður og hanskar eru hjálplegur. Yfir höfuð má setja sérstök net. Einnig eru til sérstök efni sem húða má á sig, eða a svæði þar sem flugurnar eru. Þar er um að ræða tvo aðalflokka, kemísk efni og efni sem eru unnin úr jurtum. Af þeim síðarnefndu eru vörur sem innihalda cítronella, piparminntu, sojabaunaolíu, lavander, tee-tree olíu og eucalyptus.
Kemísku efnin eru fjölmörg, en einna algengast er N,N-diethyl-3-methylbenzamide. Í flestum lyfjabúðum er hægt að fá fjölmörg efni til að draga úr áhuga mýflugnanna. Gallinn við flest þessi efni er að þau eru rokgjörn og þarf að bera eða úða þeim á sig með reglulegu millibili.

Hvað er til ráða ef maður hefur verið bitinn?


Antihistamín er hægt að fá í handkaupum í lyfjabúðum. Þau draga úr kláðanum og bólgusvöruninni. Einnig er hægt að nota krem sem draga úr bólgunni. Þau krem þarf að fá lyfseðil fyrir hjá lækni og dugir ekkert neða sterk krem ef þau eru notuð á annað borð. Í undantekningartilvikum eru notuð sterk bólgueyðandi lyf sem tekin eru inn.

© 2009-2015 Félag sumarhúsaeigenda í Hvammi Hafðu samband