Skorradalsvatn leggur og þiðnar á víxl

Hitastig það sem af er vetri hefur að mörgu leiti verið óvenjulegt. Skipst hafa á heit og köld tímabil.

Eins og venjulega lagði Skorradalsvatn um miðjan desember um fimm dögum seinna en árið áður. Það sem hins vegar er óvenjulegt eru löng tímabil með meðalhita yfir frostmarki. Þetta hefur haft í för með sér að vatnið leggur og þiðnar á víxl. Hér að neðan má sjá línurit sem sýnir meðalhita frá september 2012 til og með janúar 2013. Þar kemur fram að meðalhitinn lækkar stöðugt frá septemberbyrjun og fellur undir frostmark í byrjun nóvember. Síðan skiptast á heit og köld nokkra daga tímabil.

hiti2012
Þar sem vatnið er heitt eftir sumarið tekur nokkurn tíma fyrir það að kólna nægilega til þess að það leggi. Frá nóvember eru einungis 31 dagur þar sem hitinn er undir frostmarki, en 57 þar sem hann fer yfir frostmark. Á myndbandinu hér að neðan má einnig sjá hvernig vatnið leggur og þiðnar á víxl. Myndbandið hefst í byrjun desember og lýkur í lok janúar. Dagsetningu má sjá í efra vinstra horni.

OutsideTempHistoryjan13

Á línuritinu hér til hliðar má sjá að hiti fellur undir frostmark föstudaginn 25.01 og á myndbandinu má sjá að vatnið hefur verið það kallt að það dugi til þess að það lagði. Vefstjóri skoðaði ísinn 26.01 og var hann sæmilega þykkur (sjá mynd hér að neðan). Ísinn þiðnaði síðan aftur í dag (27.01)

Það er áhugavert að velta fyrir sér hvað gerist þegar vatnið leggur. Eftirfarandi lýsing er byggð á upplýsingum frá Vísindavefnum.

Öll stöðuvötn með ósöltu vatni frjósa í aðalatriðum við sama hita, 0°C (núll stig eða gráður á Selsíus), sem við köllum líka frostmark vatns. Hins vegar er fróðlegt að hugsa út í það sem gerist þegar stöðuvötn frjósa.
frosidvatn
Þegar loftið kólnar niður fyrir frostmark leitast yfirborð vatnsins við að kólna líka. Til þess þarf það að losna við allmikinn varma svo að það getur tekið talsverðan tíma. Hins vegar vill svo til að kalt vatn við frostmark er léttara í sér en vatn við 4°C þannig að kalda vatnið flýtur ofan á þegar það er komið niður fyrir 4 stig, og það heldur áfram að kólna án þess að vatnið fyrir neðan í vatninu kólni neitt að ráði. Þetta flýtir fyrir því að ís byrji að myndast á yfirborði vatnsins.


Ísinn er enn léttari í sér en vatn við frostmark og flýtur því á vatninu eins og við getum líka séð þegar við setjum ísmola út í vatn. Engu að síður þykknar ísinn á á vatninu hægt og hægt ef lofthitinn fyrir ofan hann er áfram fyrir neðan frostmark. Vatnið fyrir neðan ísinn blandast hins vegar ekki upp við kólnunina af því að kaldasta vatnið er alltaf efst. Vatnið við botninn getur því verið heitara en við frostmark, þó að á yfirborðinu sé þykkur ís. Allt þetta verður til þess að tiltölulega sjaldgæft er að tjarnir og vötn botnfrjósi sem kallað er, það er að segja að allt vatnið í þeim verði að ís. Það er líka heppilegt fyrir lífríkið í vatninu, meðal annars af því að vatn er í öllum lífverum og margar þeirra þola því illa að vatnið frjósi. Auk þess er náttúrlega ekki hægt að synda í frosnu vatni!


© 2009-2015 Félag sumarhúsaeigenda í Hvammi Hafðu samband