4G net í Skorradal og möguleikar varðandi internetþjónustu

Bæði Nova og Vodafone bjóða nú upp á 4G net í Skorradal. Tveir sendar hafa verið settir upp, í Haga og við vesturenda vatnsins. Sendar í Haga ná ekki á Hvammssvæðið. Sendar við vestari enda vatnsins virðast ná ágætlega á Hvammssvæðið þó að gefið sé upp að þeir nái best til Vatnsendasvæðisins.

Tengjast má 4G neti með USB lykli sem er tengdur beint í tölvuna, en nýtist þá bara einni tölvu. Vinsælast er að nota beini sem bara þarf að stinga í rafmagn og geta þá margar tölvur tengst bæði þráðlaust eða með snúru. Einnig eru s.k. hnetur vinsælar ein þær eru svipaðar og beinarnir nema hvað að þær eru minni og handhægari og þurfa ekki alltaf að vera tengdar í rafmagn. Hneturnar eru því heppilegar sem vilja nota netið á ferðinni, t.d. á ferðalögum. Ekki er hægt að tengjast hnetunum með snúru.

Vefstjóra lék hugur á að vita hvernig 4G tæknin skilaði sér á Hvammssvæðið og framkvæmdi því mælingar á nokkrum stöðum á svæðinu. Notuð var 4G hneta frá Nova og Iphone 5 og “Speedtest” forritið frá Ookla. Mælt var tvisvar sinnum á hverjum stað og meðaltal þeirra mælinga notuð. Mældur var tengihraði við tölvu innlands (Datacell ehf). Niðurstöðurnar má sjá í töflunni hér að neðan:
internet_tbl1
*)= besti staður sem fannst reyndist vera við glugga þar sem bein lína var i sendinn. Ef hnetan var staðsett t.d. þétt við gluggapóst, eða norðan megin í húsinu þar sem merkið þurfti að fara í gegnum útvegg og fleiri veggi var árangur lakari.

Mælipúnktana má sjá á myndinni hér að neðan:

internetkort

Einnig var mælt nokkrum sinnum í grennd við sendana við vesturenda vatnsins og fengust þar sambærilegar niðurstöður og þær bestu á Hvammssvæðinu. Sambandið reyndist lélegt austan við sígræna svæðið á vesturhluta Hvammssvæðisins (púnktar A og B), en þar datt hnetan niður í 3G samband. Að meðaltali, sé þessum tveimur púnktum sleppt mældist því niðurhal vera 28,56 Mbps og upphal 14,32 Mbps, sem verður að teljast mjög gott og sambærilegt við s.k. ljósnetstengingar (VDSL) sem boðið er upp á í bænum, en betra en ADSL tengingar.

Af ofangreindu má draga þær ályktanir að gott 4G samband sé hjá Nova á Hvammssvæðinu. Líklegt að hið sama gildi fyrir Vodafone þar sem þeirra sendar eru á sömu stöðum Einu svæðin þar sem samband var lélegt var í neðri hluta sígræna skógarbeltisins. Þau hús sem eru staðsett austan megin við þétt þykkt skógarbelti gætu lent í vandræðum, en það ætti að vera auðvelt að leysa með loftneti.

Lítum nú aðeins á hvaða möguleikar eru á Internetþjónustu á Hvammssvæðinu. Fjögur fyrirtæki bjóða upp á þjónustu þar, eMax, Nova, Vodafone og Síminn (samkeppni er góð). Þjónusta þeirra er dregin saman hér að neðan:

internet_tbl2

Hjá öllum fyrirtækjunum, nema eMax er greitt fyrir alla umferð sama hvort sem hún er innan- eða utanlands. Nova er eina fyrirtækið sem gefur möguleika á að kaupa frelsi.

Margir hafa kvartað yfir að 3G þjónusta Símans sé mjög hægvirk og nánast ónothæf þegar margir eru í dalnum. Eftir á að koma í ljós hvernig Vodafone og Nova standa sig undir álagi. Ekki hafa heyrst kvartanir um að eMax standi sig illa undir álagi. Verð hjá Nova og Vodafone er svipað, nema að Nova gefur möguleika á stærri áskriftarpökkum fyrir þá sem nota netið mikið. Sjá hér að neðan. Þá er Nova eina fyrirtækið sem gefur möguleika á frelsi, en þá eru notendur ekki bundnir áskrift.

Verð fyrir internetþjónustu eru dregin saman hér að neðan (13.07.13):

internet_tbl3
*) Ótakmarkað innlent niður- og upphal. Innifalið 1Gb erlent niðurhal. Greitt aukalega fyrir erlent niðurhal fram yfir 1Gb. X)= ekki boðið upp á.

Allt sem birt er hér að ofan er birt án ábyrgðar. En svona til að auðvelda fólki að feta sig í internetfrumskóginum er hér að neðan birt fréttaskýring Morgunblaðsins um sama efni:

Fréttaskýring

Hér áður fyrr tók fólk farsímann og fartölvuna með í sumarbústaðinn, kíkti á tölvupóstinn og skoðaði fréttavefi en núna er hins vegar eftirspurnin önnur. Í dag vill fólk nánast geta tekið sjónvarpið heima í stofu með upp í sumarbústað. Þetta segir Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri fjarskiptafyrirtækisins Nova, en nýlega setti fyrirtækið upp 4G-netþjónustu í Skorradal og Grímsnesi. Áður hafði fyrirtækið 4G-vætt höfuðborgarsvæðið.

Jafn öflugt og heimanetið

»4G-kerfið er í rauninni jafn öflugt og adsl-kerfi, afköst kerfisins eru margföld á við hefðbundið 3G-kerfi,« segir Liv og bendir jafnframt á að fólk í dag láti sér ekki lengur duga að geta einungis skoðað fréttavefi í sumarbústaðnum. »Fólk er komið með Netflix í tölvurnar, það er á Youtube, það horfir á heilu fréttatímana hjá Stöð 2 og RÚV og netnotkunin er almennt orðin það mikil að við hefðum ekki annað þessu á 3G-kerfinu, a.m.k. ekki í þessum stærstu sumarbústaðabyggðum og á höfuðborgarsvæðinu,« segir Liv sem sér jafnframt mikil tækifæri fyrir 4G-netið á höfuðborgarsvæðinu, einkum á meðal fólks sem vill öfluga nettengingu án heimasíma.

Að sögn Livar er hægt að tengjast 4G-netinu með allskonar búnaði, m.a. svokölluðum 4G-pungum sem hægt er að tengja í USB-tengi á tölvum, nú eða með 4G-boxum sem tengjast beint næstu rafmagnsinnstungu. »Þú stingur þessu bara í samband og þá ertu komin með þráðlausa heimatengingu í bústaðnum,« segir Liv og bendir á að síðan geti fólk setið með fartölvuna, farsímann eða spjaldtölvuna úti á palli eða í heita pottinum og leikið sér á netinu.

Myndum varpað á sjónvarp

»Áður fyrr varstu kannski með pung í fartölvunni en í dag er fólk að fara upp í sumarbústað með alla fjölskylduna og það eru allir með farsíma, spjaldtölvur og jafnvel fartölvur og þá tengjast allir þráðlaust inn á þetta box,« segir Liv. Þá bætir hún við að NOVA bjóði einnig 25% afslátt af Apple TV með 4G-áskrift en sú þjónusta gerir fólki kleift að varpa kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum af farsíma, spjaldtölvu eða fartölvu yfir á sjónvarpið í bústaðnum.

Netþægindin með í sveitina

Fjarskiptafyrirtækið Vodafone hefur jafnframt sett upp 4G-net á vinsælum sumarbústaðasvæðum, þ.ám. í Eyjafirði, Skorradal, Borgarfirði, á Laugarvatni, Grímsnesi og á svæðunum í kringum Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyri. »Á mannamáli þýðir þetta í rauninni að menn geta sett upp beini (e. router) og hann tengist síðan þráðlaust í næsta sendi án þess að vera í sambandi við símalínu eða ljósleiðara. Inni í bústaðnum getur fólk tengst beininum með sama hætti og það gerir heima hjá sér,« segir Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone, sem bætir við að með þessu séu öll netþægindi heimilisins komin í sveitina með þeim fyrirvara þó að 4G-netið stenst ljósleiðaratengingum ekki snúning. Þá bendir hann á að ólíkt heimilisnettengingum þá greiði fólk fyrir allt niðurhal á 4G-netinu, hvort sem er innlent eða erlent.

© 2009-2015 Félag sumarhúsaeigenda í Hvammi Hafðu samband