Bjarnarkló í Skorradal

Birgir Benediktsson spurðist nýlega fyrir um Bjarnarkló í Skorradal. Ástæðan fyrir spurningu Birgis voru nýlegar fréttir um fólk sem brunnið hafði illa af völdum þessarar plöntu.
Svarið við spurningu Birgis er að töluvert er um Bjarnarkló í Skorradal, aðallega niður við vatnið. Það var Guðjón Jensson sem fyrst vakti athygli á Bjarnarkló landi Hvamms og má sjá hér hluta úr bréfi sem Guðjón sendi mér sumarið 2010.

"Við Úrsúla vorum í Skorradal á dögunum og komum heim í gær. Frekar leiðinlegt
en gott vinnuveður. Við rákumst á neðst í landinu okkar gest sem við teljum
ekki vera eftirsóttan: Hefurðu heyrt um bjarnarkló (Heracleum stevenii) og
ofnæmi af völdum þessarar hávöxnu jurtar sem minnir nokkuð á ætihvönn og
geithvönn en er mun stórvaxnari?

Við þurfum að fylgjast betur með þessu og uppræta þessa jurt fremur en
lúpínuna. Hún gerir ekki meira af sér en að dreifa sér um fjöruna ásamt
eyrarrósinni. Við dáumst af dugnaði hennar enda á hún töluverðan þátt í að
draga úr raski af völdum of hárrar vatnsstöðu."

Undirritaður hefur séð töluvert af sjúklingum sem brunnið hafa í húðinni af völdum ýmissa jurta, en þar er þó Bjarnarkló fremst í flokki. Einkennandi er að safin úr jurtunum smitast á húðina, en umbreytist síðan í eiturefni af völdum sólarinnar. Það sem í raun gerist eru að þessi efni taka upp orku sólarinnar sem síðan losnar í húðinni og veldur bruna. Kallast þessi svörun "phytophotodermatitis" á erlendum málum. Yfirleitt engin hætta af völdum þessara efna ef menn gæta sína á að þvo þau af húðinni áður en sól nær að skína á húðina. Þó þau tilvik sem greint var frá í fréttum hafi verið alvarleg og þarfnast sjúkrhúsvistar fá sem betur fer flestir ekki svo alvarleg einkenni.

Sumt grænmeti eins og sellerí getur einnig valdið svona bruna, bæði við snertingu og við mikla neyslu. Minnist undirritaður þess að hafa séð 2 stúlkur sem voru að vinna við grænmeti í Hagkaupum og skruppu í út í hádegispásu á sólríkum degi, en enduðu með brunasár á höndum. Lime getur einnig valdið svipuðum einkennum. Eins og margir þekkja er lime notað í drykkinn Margaritha og eru dæmi þess að menn hafi varið flatt á mikilli Margarithadrykkju í sólarlandaferðum. Annað nafn yfir þennan sjúkdóm á erlendum málum er "Margaritha dermatitis".

En þessi efni eru ekki bara slæm. Sum þeirra eru notuð til lækninga. Þannig eru t.d. s.k. psroalen, sem m.a. má finna í sellerí, notuð til lækning við ýmsum húðsjúkdómum. Þau eru þá notuð til að auka ljósnæmi húðarinnar áður en ljósameðferð er gefin, t.d. við psoriasis. Oftast eru þessi efni þá gefin í töfluformi 1-2 klst fyrir ljósameðferð. Fornegyptar þekktu þessu efni og notuð blöndu af jurtum og sól til lækninga á húðsjúkdómum.

Magnús Jóhannsson prófessor skrifaði um Bjarnarkló á Vísindavefinn 2009 og fer umfjöllun Magnúsar hér á eftir.

Sumir virðast halda að allt, eða að minnsta kosti flest, sem kemur úr náttúrunni, og þá sérstaklega úr jurtaríkinu, sé hollt og heilnæmt. Þá gleymist að mörg af lúmskustu og sterkustu eiturefnum sem við þekkjum koma einmitt úr jurtaríkinu. Fáein dæmi um vel þekkt eiturefni úr jurtaríkinu eru blásýra, nikótín, kókaín, ópíum, digitalis, koffín og kannabis en þar að auki er mikill fjöldi eitraðra efna sem eru minna þekkt.

Fyrir utan þessi eiturefni eru ýmis sem valda ofnæmi með útbrotum, snertiexemi eða gera húðina svo viðkvæma fyrir ljósi að jafnvel innilýsing getur valdið bruna (annars stigs) með vessandi blöðrum og sárum. Plöntur sem geta valdið útbrotum af ýmsum toga er að finna nánast alls staðar í umhverfi okkar, sem stofublóm, garðagróður, grænmeti eða villtar jurtir úti í náttúrunni. Sumar af hættulegustu plöntunum, til dæmis risahvannir, er auðvelt að þekkja og þess vegna auðvelt að varast.

Víða í görðum á Íslandi er að finna risahvannir sem sumar geta orðið 2-3 metrar á hæð og eru oft til mikillar prýði og stolt margra garðeigenda. Þarna er einkum um að ræða bjarnarkló en til eru fleiri tegundir risahvanna (af ættinni Heracleum). Risahvannir eru svo nefndar vegna þess að þær líkjast og eru skyldar ætihvönn en eru miklu stærri. Nokkrar tegundir risahvanna vaxa hér og er dálítill ruglingur á nafngiftum þannig að handbókum ber ekki saman en algengastar eru bjarnarkló, tröllahvönn og tromsöpálmi. Í því samhengi sem hér um ræðir eru allar tegundir risahvanna álíka eitraðar. Risahvannir er að finna í görðum víða um land.

bjarnarkloRisahvannir eru eitraðar á þann hátt að berist safi úr blöðum eða stönglum á húð, veldur það ljósertiexemi. Í safa plöntunnar eru efni (einkum efnið psoralen) sem sogast fljótt inn í húðina og valda því að hún verður ofurviðkvæm fyrir útfjólubláu ljósi. Við minnstu birtu fær viðkomandi annars stigs bruna með vessandi blöðrum og sárum sem oft eru í rákum eða skellum þar sem plöntusafinn straukst eða draup á húðina en slíkt kallast ljósertiexem. Útbrotin koma oftast 5-18 klst. eftir sólbað og eru verst eftir 1½ til 2 sólarhringa. Húðin er viðkvæm í nokkrar vikur og eina ráðið er að verja viðkomandi húðsvæði fyrir ljósi en það getur verið erfitt til dæmis í andliti. Þegar brunasárin hafa gróið skilja þau oftast eftir brúna bletti sem geta verið mörg ár að hverfa.

Slysin verða þegar fólk er að klippa eða grisja plönturnar eða við leik hjá börnum, til dæmis ef þau nota hola stöngla plöntunnar fyrir blásturspípur. Mörg tilvik af slæmum bruna eftir risahvannir eru þekkt hér á landi og hafa sjúklingarnir leitað á heilsugæslustöðvar eða til sérfræðinga í húðsjúkdómum. Hættulegast er ef fólk kemst í snertingu við plöntur sem eru eitraðar á þennan hátt og fer síðan í sólbað eða á sólbaðsstofu. Hér á landi eru þekkt nokkur tilvik af slæmum bruna hjá fólki sem vann við að snyrta og pakka selleríi (blaðselju) og fór síðan á sólbaðstofu.

Fjöldinn allur af plöntum inniheldur efni sem gera húðina viðkvæma fyrir ljósi og geta valdið ljósertiexemi og fyrir utan risahvannir og sellerí má þar nefna hvannir, nípu, gulrætur (stönglar og blöð), ýmsar sóleyjar, steinselju, fíkjutré, dill, linditré og sumar tegundir sinnepsplantna. Það er því virkilega ástæða til að varast þær plöntur sem hér hafa verið nefndar og vafasamt er að risahvannir eigi rétt á sér á stöðum þar sem börn eru að leik og í almenningsgörðum.

Ýmsar jurtir geta valdið útbrotum (snertiexemi) á annan hátt en hér hefur verið lýst og má þar nefna páskaliljur, túlípana (laukurinn), köllubróður (Dieffenbachia), gúmmítré, hvítlauk og margt fleira.

Magnús Jóhannson, Vísindavefurinn 2009

© 2009-2015 Félag sumarhúsaeigenda í Hvammi Hafðu samband